Friday, May 8, 2009

Fílslæti

Fyrir ofan okkur býr fíll eða það héldum að minnsta kosti en nú bendir allt til þess að hér sé á ferðinni eitthvað töluvert stærra og þyngra. Þetta ferlíki vakir allan sólarhringinn og fer aldrei út úr húsi, allavegna ekki svo að við höfum séð til (ætli það komist nokkuð út um dyrnar?). Það æðir um og stoppar sjaldan í meira en eitt andartak. Stundvíslega klukkan 8:00 gefur það frá sér furðulegt suð sem ómar í gegnum loftið hjá okkur. Við gerum okkur ekki alveg grein fyrir því hvort það er að matast eða hvort það er að gera eitthvað allt annað og dularfyllra. Allur dagurinn fer síðan í að færa til húsgögn (með rananum?) og trampa um. Á slaginu 17:30 heyrist hið illskiljanlega suð á ný. Eftir það verður yfirleitt rólegt um stund en síðan hefst næturgangan langa. Hún felst í þungstígu rölti, að öllum líkindum í hring eða eftir fyrirfram ákveðinni braut. Það eina sem getur stöðvað þessa iðju er ef hundur gólar fyrir utan en þá hleypur ferlíkið að glugganum á ótrúlegum hraða.

Svona heldur þetta áfram dag eftir dag, nótt eftir nótt!
Okkur er næstum farið að þykja vænt um .... það (?)

Monday, May 4, 2009

Mál að grilla?


Á sunnudaginn var var planið að grilla á Donauinsel með fjórum félögum Ernis úr þýskubekknum. Daginn áður höfðum við öll farið á kaffihús og ákveðið að grilla daginn eftir því sunnudags veðurspáin var svo frábær . Um morguninn fengum við sms frá japanska píanóleikaranum svo hljóðandi að hún þyrfti að skreppa til Salzburgar til að fara í tíma, þannig að hún kæmist ekki . Eins og ákveðið hafði verið vorum við mætt á Friedensbrücke klukkan tólf en enginn var mættur. Við biðum í góðum félagskap gamallar vændiskonu dágóða stund og löbbuðum síðan allt í kringum stoppustöðina en enginn kunnulegur var sjáanlegur. Nú var kominn tími til að hringja í einhvern og varð rússneski snyrtifræðingurinn fyrir valinu. Hún var heima hjá sér að sminka sig og hafði skilið planið svo að allir hefðu ætlað að hittast klukkan eitt. Þá var málið að hringja í Tyrkjann sem var aðal skipuleggjandi þessa hittings. Hann var steinsofandi þegar við hringdum, (átti víst í deilum við herbergisfélaga sinn fram undir morgun) og var alveg miður sín yfir því að hafa sofið yfir sig, hann sagðist þó koma eftir 15 mínútur.

Þar sem við vorum ansi kaffiþyrst og höfðum ekki mikinn áhuga á frekari samskiptum við vændiskonuna ákváðum við að fá okkur kaffibolla á Café Macdonalds (það var ekki úr mörgum stöðum að velja fyrst það var sunnudagur en undarlegt nokk þá var þarna bara ágætis kaffi að fá). Hæstánægð snérum við til baka þar sem Tyrkinn beið okkar hálfsofandi ofan á dagblaðakassa. Hann var samt hinn hressasti þegar hann sá okkur og furðaði sig á því að enginn væri mættur. Tyrkinn hringdi því í grísku söngkonuna en hún var líka steinsofandi en ekki svo miður sín yfir því, því af einhverjum óljósum ástæðum hafði hún haldið að hætt hefði verið við grill-hittinginn. Hún sagðist samt ætla að koma og hitta okkur aðeins seinna.

Þegar rússneski snyrtifræðingurinn mætti fórum við í Billa (ein af tveim (!) matvörubúðum í bænum sem eru opnar á sunnudögum) til að kaupa mat en þar sem enginn hafði gert ráð fyrir grilli enduðum við á því að kaupa samlokur og jarðarber. Við komum okkur vel fyrir undir stóru tréi við Donau og hámuðum í okkur nestið á milli þess sem við ræddum málin á heftu þýskunni okkar. Það kom í ljós að Tyrkinn hafði átt íslenska kærustu og rússneski snyrtifræðingurinn átti mjög erfitt með að trúa því að svo fámenn þjóð eins og Íslendingar gætu gert eitthvað merkilegt yfir höfuð. Síðan lærðum við heilmikið um hið merka land Rússland og allt um tyrkneskan fótbolta. Þremur klukkutímum eftir að við höfðum sest niður mætti síðan gríska sönkonan með taglprýddan kærasta. Hann er víst dýralæknir og byrjaði á því að segja okkur frá einhverju skriðkvikindi sem við þyrftum að fá mánaðarlega bólusetningu við, helst strax í gær. Þetta kvikindi er víst mjög hættulegt því að ef það bítur mann dofna fyrst útlimirnir og síðan deyr maður! Dýralæknirinn gat ekki lýst þessu kvikindi fyrir okkur því hann vissi ekki hvernig það lítur út og hann vissi bara hvað það heitir á grísku en hann bauð okkur nú samt góðan bólusetningar díl, aðeins 27 Evrur plús læknakostnað.

Eftir þessa ágætu fræðslu (?!) ákváðum við að tími væri kominn til að halda heim á leið enda klukkan orðin margt og við farin að sólbrenna.

Sunday, February 8, 2009

Sunnudagur

Það er búið að rigna í allan dag þannig að við höfum haldið okkur innandyra, við fórum seint á fætur og eyddum öllum morgninum í lestur á þeim jólabókum sem eftir eru. Þegar við loksins fórum á fætur gæddum við okkur á brauðbollunum sem við bökuðum í gær ásamt því áleggi sem eftir var í ískápnum síðan héldum við áfram að lesa og hafa það notalegt.

Góður sunnudagur!

Saturday, January 17, 2009

Komin heim í kotið á ný!

Þegar við komum heim eftir jólafríið beið okkar það skemmtilega verkefni að tvímelda okkur í landið. Það þarf sem sagt að melda sig hjá yfirvöldum ef maður dvelur lengur en þrjá daga í
Austurríki og síðan aftur (hjá öðru embætti) ef það er á planinu að vera lengur en þrjá mánuði. Seinni meldingin verður að sjálfsögðu að eiga sér stað innan þriggja mánaða frá fyrstu meldingu og að sjálfsögðu tókst okkur að seinka þessu það oft að við misstum af hinum heilaga fresti.
Við ætluðum nú aldeilis að kippa þessu snöggvast í lag og drulluðumst á skrifstofuna sem var staðsett í hverfi með ískyggilega háu númeri. Í fyrstu gekk allt vonum framar, maðurinn sem afgreiddi okkur var meira að segja næstum hjálplegur. Við mættum með skjalasafn Mostgasse 6 með von um að geta brætt sérhvert embættismannahjarta sem á vegi okkar yrði en þegar Ernir framvísaði skólapappírunum sínum (ásamt vottorði á fimm tungumálum um námslánasamþykkt frá sænska ríkinu) varð maðurinn óöruggur og kallaði á yfirmann sinn.
Æj æj hugsuðum við bæði þegar fram kjagaði gígantísk kona í appelsínugulu tjaldi. Ánægjubros færðist yfir varir hennar þegar hún leit á pappírana hans Ernis og um leið og hún opnaði munninn gerðum við okkur grein fyrir að hér á ferð var engin venjuleg kona.
Við vorum lent í skrifstofukonu frá helvíti!

"Das ist kein ordentliches Studium" stundi hún áfergjulega og lét sig hverfa ofan í holuna sína aftur. Maðurinn brosti vandræðalega og hvarf á eftir skessunni. Að neðan heyrðust ógurleg öskur og inn á milli mátti greina setningar í líkingu við; "Das sind nur die Regeln!!!" og "Sie müssen genauer anschauen!!!". Hinn fyrrum hressi maður snéri niðurlútur til baka og útskýrði fyrir Erni að ef hann gæti ekki sýnt fram á það að eiga gífurlegt magn af peningum á reikningnum sínum þá kæmi die FREMDPOLIZEI og tæki hann!


Við bíðum spennt.

Thursday, November 20, 2008

Íbúðarleitin mikla (aka Findin´our Crib (MTV-óverdós í gangi, vegna sókn í ódubbað efni))

Í seinustu færslu vorum við farin að hugleiða að færa okkur um set það er að segja að setjast að í nýrri íbúð. Leitin hófst í rólegheitunum eftir komu internetsins. Við héldum að við værum bara skoða, með það að sjónarmiði að flytja í fyrsta lagi einhverntíman eftir jól, en okkur óraði ekki fyrir því hve allt gengur rosalega hratt fyrir sig á þessum blessaða fasteignamarkaði. Við vorum algjörlega búin að stilla okkur inn á hægaganginn og tregðuna sem virðist einkenna alla aðra geira þjóðfélagsins.

VARÚÐ! LÖNG FÆRSLA FRAMUNDAN!

Við einblíndum á íbúðir sem voru „ohne Maklergebühren“ en það er siður hérna að leigumiðlunin hyrði af manni þriggja mánaða leigu fyrir það eitt að auglýsa íbúðina (okkur þótti það ekki spennandi). Markaðurinn er því töluvert minni en það virðist sem fleiri og fleiri kjósi að losna við leigumiðlun sem millilið og leigja því „privat“. Af biturri reynslu komumst við samt að því að meðal þeirra eru einnig vafasamir aðilar sem ber að varast.

Fyrsta íbúðin sem við skoðuðum var í 2. hverfi og leit mjög vel út í skrifuðu máli. Harris Amas var sá fyrsti til að ansa fyrirspurnum okkar yfir höfuð og vorum við því afar spennt að fá að skoða þessa dýrindis íbúð. Herra Amas tók á móti okkur á tilsettum tíma, seint að kvöldi til. Okkur leist vel á hann, enda var hann hress og lék á alls oddi, en þegar við komum upp í íbúð hætti hressleiki hans að fara vel í okkur. Tilraunir hans til að kveikja ljós í íbúðinni misheppuðust en hann var greinilega ekki óvanur þessu fyrirkomulagi og var því búinn vasaljósi. Hann brunaði með okkur í gegnum íbúðina og lýsti snöggt á þá staði sem honum hentaði en lét annars munnlegar lýsingar á kostum íbúðarinnar duga. Eftir að hann hafði dásamað kosti þess að hafa salerni og sturtu inni í eldhúsinu bætti hann hressilegu aukagjaldi við sem að okkur skildist átti að renna óskert beint í vasa hans. Þá kvöddum við hann vinalega og drifum okkur út.

Við vorum því ekki eins vongóð þegar okkur var næst boðið í íbúðarskoðun, en við höfðum verið í miklu sambandi við hann Joachim de Staehlmann-Gramsch, blaðamann. Honum fannst greinilega mikið til þess koma að vera blaðamaður, hann minntist á það margsinnis í auglýsingunni og mæltist til þess að leigjandinn væri einnig blaðamaður. Eitthvað fannst honum erfitt að skrifa nafnið sitt en hann skrifaði alltaf undir bréfin sín með starfsheiti sínu ( „journalist“). Skilningur okkur á bréfum hans var takmarkaður, því einhverra hluta vegna notaði maðurinn hvorki kommur né punkta, og nennti sjaldnast að klára orðin ef þau voru fleiri en þrír stafir. Hann var einnig mikið í því að afboða fundi okkar, því eins og hann sjálfur sagði þurfti hann svo mikið að blaðamannast („journalistisch arbeiten“). Eitt kvöld tókst honum samt að troða okkur inn í dagskrána sína og bauð okkur að koma í 3. hverfi klukkan 21.00. Við mættum stundvíslega, en enginn tók á móti okkur í portinu. Við hringdum því á allar nafnlausar bjöllur (því mikilfenglega nafn hans var hvergi sjáanlegt), og að lokum svaraði maður. Þegar við nefndum íbúðina sagðist hann koma niður eftir skamma stund, en við vorum á því að fara þegar hann loksins kom. Þegar við kynntum okkur og spurðum hann að nafni hló hann bara og neitaði því alfarið að vera Blaðamaðurinn. Maðurinn lallaði lítinn spotta upp og niður götuna og stakk sér svo aftur inn í hús. Við fórum heim, svekkt.

VARÚÐ! FÆRSLAN ER EKKI HÁLFNUÐ, ERUM EKKI AÐ GRÍNAST, HÚN ER Í ALVÖRUNNI LÖNG!

Við vorum ekki á þeim buxunum að gefast upp og héldum ótrauð áfram að hafa samband við leigusala. Við áttuðum okkur smám saman á því að góðu íbúðirnar fara nánast um leið og þær koma á netið. Okkur tókst eftir þessa uppgötvun að fá íbúðarsýningu eldsnemma morguns í 4. hverfi, á mjög miðsvæðis og skemmtilegum stað. Þar tók á móti okkur indælis kona (sem tók ekki fram starfsheiti sitt), og sýndi okkur alla króka og kima í íbúðinni, sem var hin fallegasta. Ljósin virkuðu, veggirnir voru nýmálaðir og nýbúið var að pússa parkettgólfin. Þetta sá maður allt skýrt og greinilega í morgunbirtunni sem lýsti upp íbúðinna. Okkur tókst hreinlega ekki að finna neitt að henni, en þar sem þetta var bara önnur íbúðin sem við skoðuðum þorðum við ekki að segja já takk, amen á staðnum. Við hringdum þó snemma næsta morgun, vegna mikillar eftirsjár og svenleysi yfir hægaganginum í okkur, en þá var hún strax farin á bak og burt.
Þessi missir var sár en gerði okkur enn æstari í að hafa samband við nýauglýstar íbúðir. Fáir svöruðu í langan tíma, og við drusluðumst til að skoða nokkrar sem stóðust engan veginn samanburðinn við „glötuðu íbúðina“.

En allt í einu kom á netið íbúð sem vakti áhuga okkar á ný. Nýuppgerð íbúð, aðeins fjær miðbænum, aðeins minni, en leit verulega vel út á myndunum. Samkvæmt nýlærðum viðbrögðum köstuðum við okkur á símann, og fengum að koma strax morguninn eftir að skoða (7:45!). Frú Hasenhüttl var eldhress í morgunsárið og spjallaði og spjallaði á meðan hún sýndi okkur íbúðina en þegar hún komst að því að við værum ekki spánverjar eins og hún hafði áætlað (vegna hreimsins okkar á þýskunni) heldur frá Íslandi skipti kerlingin aldeilis um lit. Hún tjáði okkur að hún ynni í banka og að hún vissi allt um það hve erfitt það væri að fá yfirfærða peninga frá Íslandi. Þegar Ernir reyndi að útskýra fyrir henn að hann fengi námslán frá Svíþjóð og því væru millifærslur ekkert vandamál hristi hún bara hausinn og var greinilega löngu hætt að hlusta á okkur. Hressleiki hennar var fokinn út um gluggann og okkur var vísað á dyr með þeirri staðhæfingu að við gætum ekki borgað tryggingagjaldið sökum þjóðernis.

(Mælum með klósettpásu núna ef þið eruð í spreng)

Nú vorum við heldur betur orðin leið á þessari íbúðarleit og okkur langaði helst að leggja árar í bát, allavegana í bili. Við héldum þó áfram að fá íbúðartilkynningar á mailið okkar (frá síðu sem við vorum búin að skrá okkur á) og kvöld eitt kom kunnugleg íbúð aftur á veraldarvefinn. Og viti menn, það var „glataða íbúðin“ sem var komin aftur. Síminn bjóst næstum við því að við köstuðum okkur á hann og það munaði minnstu að hann næði að forða sér. Íbúðarauglýsingin var ekki fyrir slysni komin aftur á netið eins og við óttuðumst heldur var slysið leigjandinn sem var fyrri til. Hún (leigjandinn tilvonandi) hafði verið í flóknum skilnaði við mann sinn (að sögn leigusalans), gerði leigusamning á staðnum en sagði samt að pabbi sinn kæmi seinna að borga tryggingagjaldið. Það var síðan aldrei borgað og þegar greyið leigusalinn hringdi í konuna hafði hún sæst við mann sinn og löngu hætt við íbúðina. Heppin við! Allt í einu fengum við íbúðina sem við vildum hvað mest og í stað þess að flytja einhvern tímann eftir jól urðum við að gera samning strax og þess vegna flytjum við á Mostgasse í byrjun desember! Mega hasar en við erum mjög spennt.

Gaman er samt að segja frá því að í gær fengum við tölvupóst frá herra Blaðamanni, þar sem hann tjáði okkur (án þess að afsaka sig nokkuð) að hann hefði verið á „blaðamannaferðalagi“ og þess vegna ekki getað mætt á fund okkar (sem hefði átt að vera fyrir þó nokkru síðan). Hann bauð okkur að koma aftur og skoða íbúðina og skrifaði undir „Danke, Journalist“. Sérkennilegur náungi þessi blaðamaður!

Þangað til næst,
Ásta Biene Maja og DJ Þjóðernir

Friday, November 7, 2008

Gaman er að segja frá því að við erum ennþá á lífi, sprellandi og spriklandi. Við erum núna komin með eitthvað mjög töff og nýmóðins dót, en það kallast internetið og fæst í litlum kveikjaralöguðum kössum. Þessi tækni er greinilega mikið hernaðarleyndamál, og þarf að fylla út allskonar skjöl um hjúskaparstöðu og eignir, skólavist og skapgerð bara til að geta verið neitað um hana, sé maður ekki með innlendan ábyrgðarmann með sömu og fleiri skjöl, helst eldri en 20 ára (skjölin semsagt); best væri ef þau væru frá tímum (og með undirskrift) Franz Josephs I.

Það er því mikil gleði hér á bæ að komast loksins almennilega á netið, enda höfum við legið á því!
Við uppgötvuðum Ebay fyrir alvöru í gær og erum fallin í þá gryfjuna (Ásta þar í fararbroddi). Innan fáeinna daga gætum við orðið hamingjusamir eigendur að danskri design-ljósakrónu, espressóvél, antik píanóstól og tyrknesku teppi svo eitthvað sé nefnt. Allt á nokkrar evrur stykkið! Ástæðan fyrir þessu Ebay brjálæði er samt sú að við þurfum að yfirgefa Grinzinghöllina og finna okkur minni og ódýrari íbúð sem fyrst. Okkur finnst því bara eins gott að byrja snemma að leita að lágmarkshúsgögnum á vægu verði, því eins leiðinlegt og það er getum við ekki stungið af með kóngadótið hennar Elísabetar.

Monday, September 1, 2008

Kassar?

Í dag var kassadagur! Pakkí kassa, líma kassa. Skrifá kassa, meil'um kassa. Vigta kassa, endurraðí kassa, bæta við kassa. Senda kassa.

Kassar Kassar Kassar
Kassar Kassar Kassar

Nú eru fimm og einn fjórði úr kassa farnir af stað til Vínar. Fyrsta skrefinu lokið í þessum "flóknara en við héldum" flutningum.